Ó sólskin, glaða sólskin (Mig langar upp í sveit)

Höfundur: Örn Friðriksson

Textahöfundur: Guðmundur Ingi Kristjánsson


Ó sólskin, glaða sólskin! þú vekur von og kæti
og vanga mína kyssir með indæl fyrirheit.
Nú strjúka hlýir vindar um vegg og þak og stræti,
og vorið er að koma. - Mig langar upp í sveit.

þar breiðast tún og engjar með velli græna og víða,
sem verða stórir heimar og ríkir fyrir börn.
Og þúsund falleg blóm eru þar sem töfra og prýða,
og þar má hlaupa um grasið og busla i smárri tjörn.

Og þangað hópast lóur er þiðna fer og hlána,
og þrestir fljúga í garðinn með söng og fjaðrablik.
Í mýri vaggar stokkönd, en straumönd fer um ána
og stingur sér í hylinn, svo prúð og fagurkvik.

Er hugsa ég um lömbin svo létt og kvik á fæti
mig langar til að smala og vera nálægt þeim.
- Og seinna kemur heyið í flekk og föng og sæti.
Ég fæ að breiða og rifja og aka kerru heim.

Á berjamó að fara um bjarta sumardaga
er betra en nokkuð annað, sem þekki ég og veit.
Að fá að sækja hrossin og flytja þau í haga
er fjarskalega gaman. - Mig langar upp í sveit.

Já, þar er margt sem gaman og gagnlegt er að skoða
er gular krónur opnast og fugl í hreiðri býr.
Og það er eins og landið sé lögmál sitt að boða,
og lífið getur kennt þér að elska blóm og dýr.

Og margt þar að gera og margt sem fyrir kemur
á meðan heyið þornar og sól á túnið skín.
En þó er yndislegast og farsælt öðru fremur
að finna gleði starfsins við útiverkin sín.

Og farinn upp í sveitir ég vildi gjarnan vera,
því vorið er nú komið og golan blíð og heit.
Nú er að leysa í dalnum, og ærnar fara að bera.
- Ég ætla að biðja mömmu að lofa mér í sveit.